„... Ég fór daglega til Chicago, en þegar ég hafði ekki nóg að gera, fór ég að skera út. Ég gat haft bekkinn fyrir utan kofann. Það var ekkert betra. Og dýrin þekktu mig svo vel, ég talaði við þau á þremur tungumálum, þeirra máli, ensku og íslensku, og þau skildu allt. Þau lásu hugarfar mitt út úr andlitsdráttum mínum."

„Svo þegar ég er búinn að búa til dálítinn haug af dóti, þá fer ég að staldra við og hugleiða, hvað ég geri nú við þetta. Ég vildi, að það kæmi til Íslands, og hvernig átti það að vera hægt. Það var með því að fara sjálfur með það heim. Það varð að ráði og hérna er ég." (Páll Lýðsson skráði í mars 1975)

(Smellið á myndirnar til að stækka þær)

Vorið 1969 tilkynnti Halldór Einarsson frá Brandshúsum í Gaulverjabæjarhreppi með bréfi dags. 2. maí, að hann óskaði eftir að gefa Árnessýslu tréskurðarmyndir sínar auk fleiri verka og ánafna sýslunni allnokkra fjárupphæð til byggingar listasafnshúss.

Vilji Halldórs var, að safn hans yrði tengt Byggðasafni Árnesinga. Hann gaf safninu 84 tréskurðarverk, 35 verk höggvin í marmara, 15 teikningar, taflmenn úr horni og 10 smámyndir úr steini. Sjá sýnishorn af verkunum.

Bygging, sem hýsa skyldi listasafn Árnessýslu, var síðan reist á lóð byggða- og bókasafns sýslunnar á Selfossi og setti Halldór sjálfur upp verk sín í rúmgóðum sal með aðstoð frænda síns, Einars Hallmundssonar. Hann tileinkaði sýninguna minningunni um foreldra sína, hjónin í Brandshúsum. Halldór lagði dúk á gólf salarins með ýmsum merkjum, sem táknuðu æviferil þeirra. Meira um gólfið.

Safn Halldórs á Selfossi var vígt þann 14. júní 1974 að viðstöddum forseta Íslands og mörgum öðrum gestum.

Forsíða // Ævi og störf // Verk í Klettey // Gjöf til Listasafns Árnessýslu // Sýnishorn af verkum
Listasafn Árnessýslu // English