Wisconsin´s Door Peninsula er tangi, sem teygir sig eins og þumall út í Michiganvatn og hefur hann löngum haft mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Þar fyrir utan liggur Washington eyja og tekur um hálfa klukkustund að komast til hennar með ferju. Meirihluti íbúanna þar er af íslenskum uppruna. Frá Washington eyju er 10 mínútna sigling til Rock Island, Kletteyjar. Á Klettey skar Halldór út í húsgögn og muni fyrir uppfinningamanninn og iðjuhöldinn Hjört Þórðarson.
„Hann vildi láta smíða húsgögn í bókasafn sitt. Ég réðist til hans til að gera útskurðinn, sem var í norrænum anda. Hann lét smíða 24 stóla og 3 „forsetastóla", stóra stóla, og tvö lestrarborð, geysistór og löng, og nokkra smærri hluti, borð og körfur, og hans eigið skrifborð, sem hann virti sjálfur á 6 þúsund dollara. Hjá Hirti vann ég þá svona hálft annað ár, og svo var ég hjá honum nokkrum árum seinna á eyjunni hans. Hann keypti eyju í Michigan vatni og átti hana mest einn. Hann eyddi þar stórfé í mannvirkjagerð... ... Þegar ég kom þar fyrst, vann hjá honum 1600 manns. En úti í eyjunni hafði hann 60 - 70 manns." (Páll Lýðsson skráði í mars 1975)
Chester Hjörtur Þórðarson (1867 - 1945) fór til Ameríku árið 1873. Hann eignaðist stóran hluta af Klettey árið 1910 og lagði metnað sinn í að byggja þar upp útfrá minningum um gamla landið. Merkasta byggingin sem hann lét eftir sig er Viking Hall sem liggur út í Michigan vatnið. Á neðri hæðinni er bátaskýli en uppi er stór bjartur salur sem Hjörtur notaði sem bókasafn og veislusal. Þrjár hliðar eru með miklum gluggum en á fjórðu hliðinni eru svalir með stórum arni. Þarna eru nú varðveitt flest húsgögnin sem Halldór skar út í.
Árið 1999 kom út bókin Valhalla in America, Norse Myths in Wood at Rock Island State Park, Wisconsin eftir Douglas "Dag" Rossman og Sharon C. Rossman. Þar er sagt frá Hirti Þórðarsyni og Halldóri Einarssyni og tréristur Halldórs í Víkingasalnum túlkaðar og skýrðar út.

Myndir og ýmsar upplýsingar eru fengnar að láni úr bókinni með leyfi höfundanna.

Forsíða // Ævi og störf // Verk í Klettey // Gjöf til Listasafns Árnessýslu // Sýnishorn af verkum
Listasafn Árnessýslu // English